UM OKKUR
— UM OKKUR —
Herðubreið menningar- og félagsheimili Seyðisfjarðar hýsir ýmsar hátíðir, þar má til dæmis nefna LungA-hátíðina, List í Ljósi og kvikmyndahátíðina Flat Earth film festival.
LungA-skólinn er með starfssemi sína í húsinu á veturnar á annari hæð húsins.
Einnig eru árlegir viðburði á borð við leiksýningar á vegum Leikfélags Seyðisfjarðar, Viskubrunnur, Lions bingó, jólaball Lions, og árshátíð grunnskólans.
Föst starfsemi svo sem mötuneyti grunnskólans og fleira hefur einnig starfsaðstöðu í Herðubreið.
Herðubreið er með tvo sali (annar með sviði) og getur hýst stórar veislur, dansleiki, ráðstefnur, fundi og fleira. Húsið bíður einnig uppá minni sali fyrir smærri viðburði og fundi.
Hægt er að panta sali og veitingar eða spurjast fyrir um allt á milli himins og jarðar á netfanginu info@herdubreidseydisfjordur.is eða með því að koma við í Herðubreið á Austurvegi 4, 710 Seyðisfirði.
Fylgstu með, sýningum, ýmsum viðburðum og almennri starfsemi húsins hér.
Umsjónar- og rekstraraðili hússins eru Celia Harrison og Sesselja Hlín Jónasardóttir.
— Saga húsins —
Árið 1923 var hlutafélagið Herðubreið stofnað í því skyni einu að koma upp samkomuhúsi á Seyðisfirði. Árið 1930 keypti hlutafélagið gamalt hús til kvikmyndareksturs, Bíóhúsið svonefnda. Þar var kvikmyndahús (þar sem við nú köllum Meyjarskemmu - FAS) í um aldarfjórðung eða þar til Herðubreið tók til starfa. Eftir 1940 batnaði hagur félagsins til muna, er hljómmyndavélar komu til. Af þessum rekstri hafði félagið góðar tekjur og hóf byggingu félagsheimilisins 1946. Húsið er reist samkvæmt teikningu Einars Erlendssonar, húsameistara með breytingum Gísla Halldórssonar, arkitekts sem einnig teiknaði innréttingarnar. Pétur Blöndal sá um uppbyggingu hússins ásamt pípulögnum og Garðar Eymundsson annaðist tréverk innanhús og málaði ásamt Jóni Brynjólfssyni. Húsið kostaði 1.300.000.- og var vígt 16. desember 1956. Um kvöldið var stiginn dans fram á nótt. Yngri hluti hússins er teiknaður af Gísla Halldórssyni en hann hefur teiknað fjölmörg mannvirki, þar á meðal mörg félagsheimili og íþróttamannvirki, m.a. Íþróttaleikvanginn í Laugardal og Laugardalshöllina ásamt fleirum. Einnig mætti nefna Lögreglustöðina í Reykjavík, Hótel Loftleiðir, Tollstöðvarhúsið í Reykjavík, Hótel Esju og verkamannabústaði í Reykjavík sem Gísli teiknaði ásamt samstarfsmönnum sínum.
Á síldarárunum fóru stórar samkomur fram í húsinu, allt að 1000 manns sóttu dansleiki þegar mest var og það var bíó oft á dag, alla daga. Ljóst var þá að stækka þurfti samkomuhús staðarins og var hafist handa við það árið 1963 að byggja við Herðubreið fyrir ágóðann af síldarævintýrinu. Þegar síldin svo síðan hvarf stöðvuðust framkvæmdir í nýju viðbótinni við Herðubreið um tíma. Það var ekki fyrr en árið 1973 að hægt var að klára bygginguna og þá var settur upp í húsinu fjölnota salur, m.a. hafði grunnskólinn þar aðsetur. Hann var þar með kennslustofur með færanlegum veggjum sem voru teknir niður þegar stórar samkomur voru haldnar í húsinu. Íbúum hafði fjölgað mikið og hagur bæjarins vænkast að sama skapi. Síðar var því rými breytt í íþróttasal.